Er munur á…

Hver er munurinn að vera háttstandandi með einhverfu eða ódæmigerða einhverfu og þess að vera velgreindur með Asperger heilkenni ?

Finnum við einhvað um málið í þessari grein eftir Jónas G. Halldórsson sálfræðing ?

http://www.barnaged.is/?s=73&ss=84

Áður en við höldum lengra þurfum við að skilgreina hugtökin „Háttstandandi“ og „velgreindur“ sem koma fram í spurningunni að ofan og takmarka viðfangsefni svarsins:

„Hátt standandi“ er þýðing á enska hugtakinu „high functional“ sem er sagt frá á eftirfarandi vefsíðum:

http://en.wikipedia.org/wiki/High-functioning_autism

http://www.webmd.com/brain/autism/high-functioning-autism http://autism.about.com/od/whatisautism/f/whatishfa.htm

Fræðin viðurkenna samsagt ekki greiningu um „hátt standandi“ alla vega eftir því sem fram kemur á ofangreindum vefsíðum á ensku.

En hvað er eiginlega átt við með hugtakinu „hátt standandi“  einhverfa ? Þegar ég setti orðin í leitarvél google.is þá fann ég eftirfarandi vefsíður:

http://www.barnaged.is/?s=73&ss=84 og http://www.jgh.is/felags_grein.html gefur okkur sömu greinina eftir Jónas G. Halldórsson sálfræðing. Greinin er afar áhugaverð en ég finn ekki svar við spurningunni með því að lesa lauslega yfir hana.  Einnig birtist linkur á vefsíðuna http://skemman.is/stream/get/1946/6616/13879/2/lokaverkefni%C3%B0_okkar_2.pdf sem er birting á ritgerð eftir Ástu Hrönn Ingvarsdóttur og Lísibet Þórmarsdóttur „Hver ræður för?“ frá april 2010. Ritgerðin er lokaverkefni til B.A. gráðu í þroskaþjálfafræðum við Háskóla Íslands, Mennta­vísinda­svið.

Ef við kíkjum inná vefsíðuna  http://highfunctioningautism.org/ þarf ekki að skoða málið nánar, samkvæmt því sem lesa má á vefsíðunni er háttstandandi einhverfa einungis annað hugtak yfir Asperger heilkenni og því enginn munur á því að vera með hátt standandi einhverfu eða Asperger heilkenni.  Samkvæmt því væri enginn einstaklingur fæddur sem uppfyllir öll greiningar­viðmið einhverfu, mælist með eðlilega greind á greindarprófi og uppfyllir ekki greiningar viðmið um Asperger heilkenni.  Furðulegt nokk, ég tel mig hafa hitt nokkra og tilheyra þessum hópi sjálf.

Þannig hef ég ekki fundið skilgreiningu á hugtakinu „high functional“ eða „hátt standandi“ með því að notast við Google leitarvélina og slá inn orðunum „háttstandandi einhverfa“  eða „high functional autism“, alla vega ekki skilgreiningu sem segir mér eitthvað.

Til að geta haldið áfram umfjölluninni minni hér þá verð ég að setja niður hver skilningur minn á hugtökunum er:

Háttstandandi er þýðing á enska hugtakinu „high-funtional“ og er átt við einstakling sem nær að fylgjast með því sem er að gerast í umhverfi hans og getur stjórnað hvert hann beinir athygli sinni án utanaðkomandi afskipta.  Sá sem telst vera háttstandandi er oft nefndur getumikill.

Lágtstandandi er þýðing á enska hugtakinu „low-funtional“ og er átt við einstakling sem gengur illa að fylgjast með því sem er að gerast í umhverfi hans og nær ekki að stjórna hvert hann beinir athygli sinni án utanaðkomandi afskipta. Margir velja frekar nota hugtökin „getulítill“ eða „mjög skertur“

En hvað með orðið „velgreindur“ ?  Eftir því sem ég best veit þá er almennur skilningur að maður sem er velgreindur hafi greindarvísitölu sem er hærri en hjá meginþorra manna.  En er það réttur skilningur?

Vísindavefur Háskóla Íslands svarar spurningum eins og „hver er greindarvísitala meðal­manneskju og hvænær er hún orðin óeðlilega lág eða há?“ og „Hvað er eðlilega há greindar­vísitala“ á vefsíðunni:   http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=5041

Hægt er að taka greindarpróf á íslensku á þessari vefsíðu: http://persona.is/index.php?action=exams&method=display&eid=21&pid=15

Í niðurstöðum segir eftirfarandi:

„Greindarvísitala gefur þér vísbendingu um getu þína til rökhugsunar. Niðurstaðan á þessu prófi segir þér hvernig þú stendur þig á þessu tiltekna sviði í samanburði við aðra. Skorið 100 þýðir að hæfni þín á þessu sviði er í meðallagi miðað við aðra.
Margir þættir geta haft áhrif á niðurstöðuna eins og þreyta eða truflun af einhverju tagi. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að með þessu prófi er ekki verið að mæla greind. Greind samanstendur af mörgum ólíkum þáttum og hér er aðeins komið inn á einn þeirra. Prófið mælir til dæmis ekki tónlistarhæfni, hæfni í samskiptum og margt fleira sem telst til þess að vera greindur.“

Í fyrrnefndu greindarprófi á www.persona.is eru lagðar fyrir svarandann ýmsar spurningar eins og þessar:

 • Hvert eftirfarandi 5 atriða sker sig frá hinum fjórum: kettlingur, barn, trylla, tryppi, lamb
 • Hvaða tala á ekki heima í þessari talnaröð: 1-3-5-7-9-10-11-13
 • Bátur og vatn tengjast á sama hátt og flugvél tengist: sól, jarðveg, vatn, loft, tré
 • Ef sumir Bifur eru bafur og allir gátar eru bafur, eru sumir bifur alveg örugglega glátar Hvort er fullyrðingin sönn, ósönn eða hvorugt?

Svarandi þarf því að þekkja heiti hluta og eiginleika (lifandi, dautt, skriðdýr, kjötæta, grasæta, aldur þess o.s.frv.  Einnig þarf svarandi að geta áttað sig á því mynstri eða reglu sem stjórnar hvort bókstafur eða tala tilheyrir runu eður ei.  Auk þess þarf svarandi að geta notast við aðferðir mengjafræðinnar.  Allt hlutir sem hægt er að læra og þjálfa sig í.  Því geta allir bætt sig á þessum prófum.   Hjá einhverfum hafa komið fram misræmi milli niðurstaðna á 100% skriflegu gáfnaprófi og venjubundnu gáfnaprófi þar sem spurningar eru lesnar upphátt af spyrjanda.

Hver var spurningin aftur?

Hver er munurinn að vera hátt standandi með ódæmigerða einhverfu, háttstandandi með einhverfu eða Asperger heilkenni þar sem skilyrði fyrir greiningu er m.a. meðalgreind ?

Ef við lítum á fræðin þá ætti að vera auðvelt sjá hver munurinn er.  En er það svo auðvelt?

Byrjum á að líta á muninn á einhverfu og ódæmigerðri einhverfu;

Eins og fram kemur í fyrri grein minni „einhverfa og skylda þroskaraskanir“ þá sjást hjá einstaklingi sem telst vera með einhverfu eða dæmigerða einhverfu 6 greinileg hegðunareinkenni þar af a.m.k. 2 einkenni í félagslegu samspili og 1 einkenni í máli og tjáskiptum og 1 einkenni þegar litið er til sérkennilegrar hegðunar eða áhugamála.

Tilgreind hegðunareinkenni eru tekin orðrétt úr grein Páls Magnússonar á vefnum doktor.is: http://doktor.is/index.php?option=com_content&view=article&id=197:einhverfurofie&catid=90:sjukdomar-og-kvillar:

1. Einkenni í félagslegu samspili.
Augntengsl, svipbirgði, líkamsstaða eða hreyfingar eru ekki notuð á venjulegan máta í samskiptum við aðra. Oft þarf t.d. nokkuð fyrir því að hafa að ná augntengslum og standa þau gjarnan stutt þegar þau nást. Á hinn bóginn kemur fyrir að hinn einhverfi stari í augu fólks án þess að sjáanlegur samskiptatilgangur búi að baki, Þannig er ekki alltaf um að ræða að tiltekið atferli vanti, heldur öllu fremur að það nýtist ekki til samskipta á eðlilegan hátt.

Tengsl við jafnaldra þróast ekki á venjulegan hátt. Þar er átt við tengslu sem m.a. fela í sér að deila áhugamálum og tilfinnungum á gagnkvæman máta.

Skortur á félagstilfinningalegri gagnkvæmni. Hinn einhverfi bregst oft lítið við tilfinningum annarra, sýnir t.d. ekki viðleitni til að hugga ef einhverjum líður illa. Einnig skortir færnina til að vekja og stýra athygli annarra t.d. með augnaráði og bendingum.

Lítill eða engin viðleitni til að deila gleði, áhugamálum eða eigin afrekum með öðrum. Hinn einhverfi kemur ekki með hluti sem hounm þykja áhugaverðir eða er hreykinn af því að sýna öðrum og á ekki frumkvæði að því að deila gleði sinni með öðrum með orðum, svipbrigðum eða augnaráði þegar hann gleðst yfir einhverju.

2. Einkenni í máli og tjáskiptum
Málþroski er seinkaður og stundum er um að ræða talleysi. Engin eða lítil viðleitni til að bæta upp skerta getu á málsviðinu með því að tjá sig með bendingum eða svipbrigðum. Hinn einhverfi bendir ekki á hluti til að vekja á þeim athygli af því að honum þykir þeir áhugaverðir og oft vantar hreyfingar sem algengt er að nota til tjáskipta, svo sem að veifa í kveðjuskyni eða hrista höfuð til að neita.

Skert geta til að hefja og halda gangandi samræðum sem byggjast á gagnkvæmni og fela í sér svörun við því sem hinn aðilinn hefur til málanna að leggja. Þetta kemur einnig fram í því að hinn einhverfi á erfitt með að „spjalla“, þ.e. að halda uppi samræðum sem hafa engan sérstakan tilgang annan en að njóta samveru við aðra.

Stegld eða sérkennileg málnotkun. Einstök orð eða setningar virðast oft greypast í huga hins einhverfa og hann hefur þau yfir í síbylju eða við tækifæri þar sem það á ekki við. Einnig bregður fyrir bergmálstali og sérkennilegri orðanotkun eða jafnvel nýorðasmíð þar sem hinn einhverfi býr sér til sín eigin orð yfir hlutina.

Þykjustuleik vantar og geta til félagslegs eftirhermuleiks er skert. Dæmi um síðastnefndu leikina eru hreyfileikir á borð við „höfuð, herðar, hné og tær“ þar sem hver þáttakandi þarf að samstilla orð sín og æði við aðra.

3. Sérkennilega, áráttukennd hegðun
Óvenjuleg áhugamál og hugðarefni. Oft er um að ræða ákafan áhuga á einu eða fleirum sviðum sem eru óvenjuleg sem hugðarefni miðað við aldur og þroska. Þannig getur einhverft barn t.d. fengið mikinn áhuga á hrærivélum sem eru ekki algengt áhugaefni í hópi jafnaldranna. Einnig getur hugurinn hneigst til viðfangsefna sem ekki eru eins óvenjuleg í eðli sínu, en áhuginn sker sig þá úr fyrir það hversu yfirþyrmandi hann verður; fátt annað virðist komast að í hugarheimi hins einhverfa.

Áráttukennd þörf fyrir að fylgja ákveðnum föstum venjum eða ritúölum. Um er að ræða sterka innri þörf fyrir að fara eftir ákveðnum föstum venjum sem eru sérstakar að því leyti að þjóna engum skiljanlegum tilgangi. Sem dæmi má nefna að einhverft barn sem ekki getur gengið inn um útidyrnar heima hja sér nema að ganga ákveðna leið eftir stéttinni að dyrunum og banka tvisvar í húsvegginn áður en það stígur yfir þröskuldinn.

Stegldar hreyfingar. Oft eru þetta síbyljuhreyfingar með höndum eða fingrum s.s. handablak, en einnig bregður fyrir flóknari stegldum hreyfingum svo sem sérkennilegu hoppi á tám eða hnjám.

Óvenjulegur áhugi á ákveðnum eiginleikum hluta. Þetta hegðunareinkenni getur t.d. komið fram í því að einhverfa barnið hefur ekki áhuga á að leika sér að leikfangi eins og venja er, t.d. að láta leikfangabíl keyra og herma eftir vélarhljóði. Barnið getur hins vegar orðið mjög upptekið af hljóðinu sem heyrist ef einu hjóli bílsins er snúið, því hvernig hinir mismunandi hlutar leikfangsins eru viðkomu, hvernig lykt er af þeim eða af því að raða leikfangabílum sífellt upp í raðir.

Háttstandandi einstaklingur með ódæmigerða einhverfu sýnir því færri ofantalin einkenni en sá sem er með dæmigerða einhverfu eða svo er okkur sagt.  En hvað með þau okkar sem eru með greiningar?

Hvað þekki ég af eigin raun?

Það er óþægilegt að horfast í augu við annað fólk og engin ástæða til þess alla jafna.  Það er ekki eins og augnalitur breytist eða það sé hægt að „lesa“ eitthvað úr augunum á fólki.  Oft er auðveldara að fylgjast með hvað viðkomandi er að segja með því að loka augunum á meðan maður hlustar.  Líkamshreyfingar eru oftast til ama og trufla einbeitingu manns á því sem verið er að segja, svipbrigði eru oft til óþurftar og trufla mann við tjáskiptin.

Alla jafna eru háttstandandi fólk með greiningu á einhverfurófi sammála um að jafnaldrar hafi aldrei haft skilning eða áhuga á því sem við vorum að upplifa og melta með okkur.

Hvers vegna ættum við að búa okkur til áhuga á því sem aðrir eru að gera og hugsa, þegar við verðum oftast fyrir neikvæðum árásum frá einstaklingum sem eru sífellt að særa aðra krakka og meiða?  Ég tel að margir foreldrar hafa hlustað á börn sín lýsa þessum krökkum með orðum eins og api, asni, fífl, ógeð, hrekkjusvín, óþverri, þroskahefti gerpi og fáviti, enda leggja þessir krakkar börn í einelti og valda ómældum sársauka í barnæsku og jafnvel síðar á ævinni. Sama má segja um marga fullorðna, en ég vil trúa að hjá þeim sé um hugsunarleysi að ræða ekki viljaverk.  Snerting sem kemur manni á óvörum (sem er oftast) er óþægileg og getur stundum verið mjög sársaukafull.

Þegar kemur að tali og tjáskiptum þá er nauðsynlegt að hafa áhuga á því að tala við fólkið í kringum okkur sem oft eru manni til óþurftar og stundum valda manni ónotum.  Þegar maður hefur uppgötvað tilgang með því að tjá sig þá er nær ómögulegt að læra hvernig maður notar þetta tæki á sem besta máta til að hafa áhrif á umhverfi sitt.  Það er jú grundvallar ástæðan fyrir því að læra að nota þetta tæki yfirleitt.  Þetta tæki er jafn flókið og kínversk rittákn! (a.m.k. þegar maður kann ekki stakt orð í kínversku, eða þekkir nokkuð til þróunar þess.)

Við erum eins venjuleg eins og mögulegt er.  Það er ótrúlegt að aðilar sem hegða sér svona furðulega alla tíð á þann máta sem maður getur engan vegin fundið rök fyrir hegðun þeirra, telja að við séum skrítin á einhvern máta og að þau hafi alltaf rétt fyrir sér og geti/þurfi/eigi að hafa vit fyrir okkur, sérstaklega þegar maður getur með engu móti gert sér grein fyrir afhverju fólk hagar sér eins og það hagar sér. Það er ekki eins og maður sjái að menn hugsi yfirleitt, allavega er ekki hægt að draga ályktun um það byggt á því sem maður sér á hegðun þess.  Það er dagamunur á líðan minni og vilja mínum /getu til að aðlaga framkomu mína að „normal hegðunareinkennum“

En er sá sem er réttilega greindur með Asperger-heilkenni sammála því sem að ofan stendur?

Greiningarviðmið Aspergerheilkenni er mjög svipuð greinarviðmiðum um einhverfu, enda bæði uppsett fyrir utanaðkomandi aðila sem horfir til hegðunar og hve framkoma er ólík því sem flestir þeir sem teljast vera án taugafræðilegra frávika ætlast til að fólk hagi sér í ólíkum aðstæðum og daglegum samskiptum:

Eftirfarandi texti um greiningarviðmið Asperger heilkennis er fenginn frá Sigríði Teitsdóttur

https://gba.hi.is/yn/verkefni/h97/asperger/greining.html

 1. Eðlislæg vanhæfni í félagslegum samskiptum, sem felur í sér a.m.k. tvö af eftirfarandi atriðum:
 1. Vanhæfni í beitingu óyrtrar hegðunar eða tjáningar í félagslegum samskiptum, s.s. starandi augnaráð, svipbrigði, líkamsstellingar og líkamshreyfing í félagslegum samskiptum.
 2. Vanhæfni í að mynda eðlileg tengsl við jafnaldra.
 3. Skortur á ósjálfráðri þörf á taka þátt í gleði annarra, áhugamálum eða árangri (m.a. að benda á hluti, sem vekja áhuga annarra).
 4. Skortur á félagslegri eða tilfinningalegri gagnkvæmni.
 1. Eintrjáningsleg, staglkennd og formföst hegðunarmynstur, áhugasvið og athafnir, sem fela í sér a.m.k. eitt af eftirfarandi atriðum:
 1. Mikill og afbrigðilegur áhugi á einu eða fleirum sérkennilegum og afmörkuðum hugðarefnum.
 2. Ósveigjanleg fastheldni á sérstæðar, óhagnýtar venjur eða siði.
 3. Formfastar og endurteknar eða stöðugar hreyfingar (s.s. endurteknar handahreyfingar, fingursmellir, flóknar líkamshreyfingar).
 4. Brennandi áhugi á tilteknum hlutum.
 1. Framangreindar truflanir valdi klínískt mælanlegri vanhæfni í félagslegum samskiptum, starfi eða á öðrum mikilvægum athafnasviðum.
 2. Það er enginn klínískt mælanlegur seinþroski í máli (þ.e. notkun stakra orða við tveggja ára aldur, og orðasambönd í samskiptum við þriggja ára aldur).
 3. Á bernskuskeiði er enginn klínískt mælanleg seinkun á vitsmunaþroska eða sjálfsbjargargetu miðað við aldur, eða í hegðun (annarri en í félagslegum samskiptum), og eðlilegri forvitni á umhverfi.
 4. Greining uppfyllir ekki sértækar skilgreiningar um aðrar gagntækar persónuleikatruflanir eða geðklofa.

M.ö.o. framangreindir hegðunarþættir verða að vera til staðar í nægjanlega ríkum mæli, þannig að þeir valdi verulegum erfiðleikum á félagslegum sviðum og öðrum þáttum daglegs lífs. Að öðru leyti verður vitsmunalegur þroski, sjálfsbjargargeta, áhugi fyrir umhverfi og almennur málþroski að vera til staðar eftir því, sem aldur segir til um.

Það er svo erfitt að gera sér grein fyrir því sem gerist í umhverfi manns og hegðun fólks er oft óút­skýran­leg.  Manni er sagt og maður hefur lesið að það sjáist greinilega hvað fólk ætlast fyrir með því að „lesa“ úr augum þess og svipbrigðum en fólk hreyfir munnvik, kinnar, vöðva í enni og höku á órökvísan máta sem kemur manni alltaf jafn mikið á óvart.  Hvers vegna gerir fólk þetta og hagar fólk sér eins og það gerir.  Það vantar alla rökvísi og skynsemi í þetta.

Aðalmunurinn virðist liggja í þörf einstaklings fyrir að eiga samskipti við annað fólk, fá það til að deila áhugamálum sínum og hugsunum:

Skortur á ósjálfráðri þörf á taka þátt í gleði annarra, áhugamálum eða árangri …

Þannig virðist sem fólk á einhverfurófi sýni allir ofangreindan skort, en sá sem er réttilega greindur með Aspergerheilkenni sýni þó ósjálfráða þörf á að aðrir taki þátt í gleði hans, áhugamálum og árangri…  Löngun sem kemur ekki fram hjá þeim sem greindir eru með einhverfu, dæmigerða sem ódæmigerða fyrr en þegar viðkomandi einstaklingur uppgötvar að annað fólk hefur hugsanir og skynjanir sem geta verið og eru oft ólík þeirra eigin.

Kannski er eina útkoman úr þessari tilraun minni til að svara spurningunni að ofan, sú að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að þó að ég hafi greiningu um Asperger heilkenni þá uppfylli ég betur greiningarviðmið um dæmigerða einhverfu!  BROS

En snúum okkur aftur að greindarvísitölunni og greindarprófinu.  Meðalgreindur Íslendingur er með greindarvísitöluna 100 en í á vísindavef Háskólans má lesa að 68% úrtaks mun mælast með greindarvísitölu á bilinu 85 til 115 stig, og að 95% fólks hafi greind sem er minna en tvö staðalfrávik frá meðaltali þ.e. milli 70-130stig.  Mig minnir að einn sérfræðinga okkar hjá Greiningarstöð Ríkisins hafi (árið 1996 þegar dóttir mín var í greiningarferli) tjáð mér að flestir þeirra sem uppfylla greiningarviðmið um einhverfu nái mun betra skori á skriflegu greindarprófi þegar mannlegi þátturinn og skilningur á talað mál er tekið út úr prófinu.

Ég man ekki hvort það var sami sérfræðingurinn eða einhver annar sem tjáði mér að 70% þeirra sem greindust með dæmigerða einhverfu væru með skor lægri en 70stig á greindarprófi og teldust því vera þroskaheftir.  En hvernig mælitæki er greindarpróf og hver eru skilyrði fyrir því að skor í svona prófi hafi möguleika á að vera marktæk?   Jú, sá sem verið er að mæla greind hjá þarf bæði að vera viljugur að hlusta á eða lesa spurningarnar og hafa bæði getu og vilja til að velta fyrir sér hvert rétt svar gæti verið og næga stjórn á líkama sínum og máltaki til að svara spurningunum.  Skor uppá t.d. 68stig er ekki marktækt hafi barnið hætt að hlusta og bent alltaf á eitthvert mögulegt svar án umhugsunar og áhuga á að velta fyrir sér spurningunni eins og ég horfði uppá dóttur mína gera í a.m.k. 15 mínútur þar sem spyrjandinn vildi ekki stoppa prófið þegar hún var búin að ákveða að þetta væri hvorki áhugavert né gaman og var því löngu hætt að hlusta á rausið í „karlbjálfanum“!   Þegar hún hætti einhverju þá var hún einfaldlega búin!

Eitt af því sem ég hef ekki komið inná ennþá er skynúrvinnsla og skilningur á umhverfinu þ.á.m. öðru fólki.  Ef við kíkum afur á greiningarviðmiðin hér að ofan, er ekki minnst einu orði á getu einstaklingsins til að átta sig á breytingum í umhverfinu eða hvort hann taki eftir og bregðist við smábreytingum umhverfis okkur sem snerta hann ekki beinlínis.  Þegar fólk með greiningar inná einhverfuróf er einfaldlega spurt hvað háir honum/henni mest skiptast  þau í tvo flokka;  þeir sem kvarta yfir vandamálum vegna skynúrvinnslu og þeir sem kvarta yfir vandamálum og geturleysi þegar kemur að samskiptum við annað fólk.

Ég man að þegar ég, þá 9 ára gömul, komst að því að annað fólk hugsar og hefur tilfinningar en þá sögu mun ég segja í annari grein.  Fyrir atvikið gerði ég mér ekki grein fyrir að það væri nokkur munur á konu og læðu eða tík, né hafði ég velt fyrir mér að það væri munur á konum og körlum annar en að konur væru heimavið en karlar sæust eiginlega aldrei.

Hvernig áttar maður sig á tiilveru hópa? Ég hef lesið um myndun hópa, upplausn þeirra og atferli manna varðandi þá, en á erfitt með að átta mig á tilvist þeirra.  Með hjálp mengja­fræðinnar (ég er svo gömul að ég lærði mengi í 7-9ára bekk 🙂 hef ég komist að hægt er að safna saman á einn stað (í huganum) öllu(eða öllum) sem eiga eitthvað sameiginlegt, dálítið sem ég man ekki eftir að ég hafi nokkurn tíma gert fyrr en í barnaskóla, enda tala ég og hugsa um „mengi allra…“ og eftir 3 ára nám á barnsaldri, þar sem megnið af skólatímanum fólst í umfjöllun um mengi, hvað væri mengi og hvað væri ekki mengi hefur það verið mér auðtamið.  En þó að ég seti ofast samasem merki milli mengi og hópur, þá er það ekki rétt hjá mér og ég hef ekkert tæki til að greina hvenær er um mengi að ræða og hvenær er um hóp að ræða…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s